top of page

Hjartsláttarbreytingar

nú þarf ég að velja

ég hata að velja

hatur er stórt orð

ég á erfitt með að velja

ég hika

hugsa mig um

samt er ég ekki beint að hugsa neitt

heldur dagdreyma um eitthvað allt annað

en valkostina

sem ég þarf að velja á milli

í bílnum

þú situr við stýrið

þetta er kvöldið sem við klesstum á

á leiðinni úr Kringlubíó

ég leit á þig rétt áður en að skellurinn kom

ég sá andlitið þitt

sveipað birtu

síðan varð allt hvítt

ári seinna sótti ég þig á flugvöllinn

þá var allt dimmt

dimmt í okkur

og ég mundi ekki eitthvað sem ég átti að muna

og við byrjuðum að rífast

og ég man ekki hvers vegna

en við rifumst alla leiðina heim

þú skelltir bíldyrunum

á eftir þér

ég horfði á þig ganga inn

þú hringdir ekki í mig daginn eftir

ég hringdi ekki

síðan sá ég þig

sveipaða birtu

í strætisvagni

mér fannst ég vera

kominn eitthvað

ég var sjö ára

og ég sá Rikka með fallega vel greidda hárið sitt

það var ljóst

hann gekk á húsþaki

þrammaði meðfram því

smellti fingrum

smellti fingrum framan í mig

SMELLTI ÞEIM

Hljóðin

Borgarhljóð úr hverju eru þau gerð? ruslabílar koma og sækja tunnur vindur blæs milli tveggja manna sem tala á ógreinilegu tungumáli meðan þeir smella saman stillönsum sírenuvæl fjarar út í morgunmyrk

Draugar

tók drauga mína með mér á hótelið leyfði þeim að þjóta um öll herbergi fylla þau og glæða lykt og lit ég ásæki þennan stað hann ásækir mig ekki

Fuglinn

fann beinagrind úr fugli í krækiberjalyngi uppi í fjallshlíðinni dó hann af náttúrulegum orsökum?

  • Instagram
  • Facebook
bottom of page