top of page

Hvaðan ég er að hringja


J.P. og ég sitjum á veröndinni á Frank Martin afvötnunarstöðinni. Líkt og flestir hérna á Frank Martin, er J.P. fyrst og fremst fyllibytta. En hann er líka reykháfahreinsari. Hann er hérna í fyrsta skipti, og hann er hræddur. Ég hef verið hérna einu sinni áður. Hvað getur maður sagt? Ég er kominn aftur. J.P. heitir reyndar Joe Penny, en hann segir að ég eigi kalla hann J.P. Hann er u.þ.b. þrítugur. Yngri en ég. Ekki mikið yngri, en örlítið. Hann er að segja mér hvernig hann ákvað að gerast reykháfahreinsari, og hann vill nota hendurnar þegar hann talar. En hendur hans skjálfa. Ég meina, þær haldast ekki kyrrar. „Þetta hefur aldrei komið fyrir mig áður,“ segir hann. Hann á við skjálftann. Ég segist finna til með honum. Ég segi honum að skjálftinn muni stillast af. Og hann mun gera það. En það tekur tíma.

Við höfum einungis verið hérna í nokkra daga. Við erum ekki sloppnir fyrir horn ennþá. J.P. er með þennan skjálfta, og af og til fer taug – kannski er það ekki taug, en það er eitthvað – að kippast til í öxlinni á mér. Stundum er það í hálsinum. Þegar þetta gerist, verð ég þurr í kverkunum. Þá er erfitt að kyngja. Ég veit að það er eitthvað að fara að gerast, og ég vil komast undan því. Mig langar að fela mig frá því, það er það sem mig langar til að gera. Bara loka augunum og leyfa því að fljóta hjá, leyfa því að taka næsta mann við hliðina. J.P. getur beðið aðeins.

Ég varð vitni að hjartaslagi í gær. Maður sem er kallaður Tiny. Stór og feitlaginn náungi, rafvirki frá Santa Rosa. Þeir sögðu að hann hefði verið hérna í tæpar tvær vikur og að það versta væri yfirstaðið. Hann var á leiðinni heim eftir einn eða tvo daga og ætlaði sér að verja gamlárskvöldi fyrir framan sjónvarpið með konunni sinni. Á gamlárskvöld hafði Tiny ætlað sér að drekka heitt súkkulaði og borða smákökur. Hann virtist í góðu lagi í gærmorgun þegar hann kom niður í morgunmat. Hann var að gefa frá sér svona kvak hljóð eins og endur gera, og var að sýna einhverjum náunga hvernig hann gat kallað til sín endur svo að þær lentu beint ofan á höfðinu á honum. „Blam. Blam,“ sagði Tiny, og skaut nokkrar úr loftinu með fingrinum. Hárið á Tiny var rakt og greitt aftur með hliðunum Hann var nýkominn úr sturtu. Hann hafði líka skorið sig á hökunni við raksturinn. Hvað um það? Nánast allir á Frank Martin eru með smásár á andlitinu. Þetta kemur fyrir. Tiny smeygði sér inn við enda borðsins og fór að tala um eitthvað sem hafði komið fyrir á einum af drykkjutúrunum. Fólkið við borðið hló og hristi höfuðið á meðan það skóflaði í sig eggjunum. Tiny sagði eitthvað, glotti, og leit síðan í kringum sig til að sjá hvort einhver hefði gefið því sem hann sagði einhvern gaum. Við höfðum allir gert álíka slæma og heimskulega hluti, vissulega, þess vegna hlógum við. Það var eggjahræra á disknum hans Tiny, ásamt nokkrum kexkökum og hunangi. Ég sat við borðið, en ég var ekki svangur. Ég fékk mér smá kaffisopa í staðinn. Skyndilega var Tiny horfinn. Hann hafði velt stólnum um koll með miklum látum. Hann lá á bakinu á gólfinu með lokuð augun og hælarnir trommuðu í gólfdúkinn. Fólk kallaði á Frank Martin. En hann var rétt hjá. Nokkrir náungar lögðust í gólfið við hlið Tiny. Einn þeirra setti fingurinn upp í munninn á honum og reyndi að grípa utan um tunguna. Frank Martin hrópaði, „Allir frá!“ Síðan tók ég eftir því að nokkrir okkar stóðu yfir Tiny og störðum á hann, án þess að geta tekið augun af honum. „Leyfið honum að anda!“ sagði Frank Martin. Síðan hljóp hann inn á skrifstofu og hringdi á sjúkrabíl.

Tiny er kominn aftur á vist í dag. Talandi um að ná sér. Frank sótti hann niður á spítala á skutbílnum í morgun. Tiny hafði komið of seint til að fá eggin sín, en hann tók smá kaffi með sér inn í matsal í staðinn og settist niður við borðið. Einhver í eldhúsinu ristaði brauð handa honum, en Tiny hreyfði ekki við því. Hann sat bara með kaffið sitt og horfði ofan í bollann. Af og til færði hann bollann fram og aftur fyrir framan sig.

Ég væri til í að spyrja hann hvort hann hefði fengið einhvers konar viðvörun áður en þetta gerðist. Ég væri til í að vita hvort hann hefði fundið hjartað missa úr slag, eða hvort það hefði farið á fleygiferð. Fékk hann kippi í augnlokin? En ég segi ekki neitt. Hann lítur ekki út fyrir að vera í skapi til að ræða þetta hvort eð er. En ég mun aldrei gleyma því sem kom fyrir Tiny. Tiny gamli, flatur á gólfinu, sparkandi út hælunum. Svo í hvert sinn sem ég finn fyrir titringi einhvers staðar, þá anda ég djúpt og bíð eftir því að ranka við mér á gólfinu, horfandi upp, með fingurinn á einhverjum upp í munninum.

J.P. situr í stólnum sínum á veröndinni með hendur í kjöltu. Ég reyki sígarettur og nota gamla kolafötu fyrir öskubakka. Ég hlusta á J.P. vaða úr einu yfir í annað. Klukkan er ellefu að morgni – það er einn og hálfur tími í hádegismat. Hvorugur okkar er svangur. En samt sem áður hlökkum við til að fara inn og setjast við borðið. Kannski verðum við svangir.

Hvað er J.P. eiginlega að tala um? Hann er að segja mér frá því þegar hann var tólf ára og datt ofan í brunn í grennd við sveitabæinn sem hann ólst upp á. Brunnurinn var uppþornaður, sem betur fer fyrir hann. „Eða kannski ekki,“ segir hann, og lítur í kringum sig og hristir höfuðið. Hann segir mér að seinna sama dag, eftir að hann fannst, hefði pabbi hans híft hann upp með reipi. J.P. hafði pissað á sig þarna niðri. Hann hafði liðið alls konar skelfingar í þessum brunni, hann hefði kallað eftir hjálp, beðið, og síðan kallað meira. Hann kallaði sig hásann áður en yfir lauk. En hann sagði mér að það að hafa verið á botninum á brunninum hafi haft varanleg áhrif á hann. Hann hafði setið þarna og horft upp í opið á brunninum. Lengst uppi, sá hann mynda fyrir hringlaga bláum himni. Þá og þegar flaut hvítt ský framhjá. Hópur af fuglum flaug framhjá, og svo virtist fyrir J.P. líkt og vængjaþytur þeirra ýtti af stað einhverjum undarlegum bægslagangi. Hann heyrði önnur hljóð. Hann heyrði í afar lágu skrjáfi efst í brunninum, sem fékk hann til að velta fyrir sér hvort eitthvað myndi falla ofan í hárið á honum. Hann var að hugsa um skordýr. Hann heyrði í vindinum þjóta fyrir ofan brunnopið og það hljóð hafði áhrif á hann líka. Í stuttu máli sagt, var líf hans allt öðruvísi á botni brunnsins. En ekkert féll niður á hann og ekkert lokaði fyrir þennan hringlaga bláa himinn. Svo kom pabbi hans með reipið og ekki leið á löngu áður en að J.P. var kominn aftur út í heiminn sem hann þekkti.

„Haltu áfram að tala, J.P. Hvað svo?“ segi ég.

Þegar hann var átján eða nítján ára og búinn með menntaskóla og hafði ekkert fyrir stafni í lífinu, fór hann einn eftirmiðdaginn yfir í næsta bæ að heimsækja vin sinn. Þessi vinur hans bjó í húsi með arineld. J.P. og vinur hans sátu og kjöftuðu og drukku bjór. Þeir settu nokkrar plötur á fóninn. Síðan hringir dyrabjallan. Vinur hans fer til dyra. Ung kona sem er reykháfahreinsari stendur í dyragættinni með hreinsidótið sitt. Hún er með pípuhatt á höfðinu og sú ásýnd slær J.P. alveg út af laginu. Hún segir vini J.P. að hún hafi verið bókuð til að þrífa arineldinn. Vinurinn hleypir henni inn og hneigir sig. Unga konan gefur honum engan gaum. Hún breiðir út teppi við arinhelluna og leggur niður græjurnar sínar. Hún er klædd í svartar buxur, svarta skyrtu, svarta skó og sokka. Á þessum tímapunkti hefur hún, að sjálfsögðu, tekið niður pípuhattinn. J.P. segir að það hafi næstum gert útaf við hann að horfa á hana. Hún vinnur vinnuna sína, hún þrífur reykháfinn á meðan J.P. og vinur hans hlusta á plötur og drekka bjór. En þeir fylgjast með henni og þeir fylgjast með því sem hún gerir. Af og til horfa J.P. og vinur hans hvor á annan og glotta, eða blikka sín á milli. Þeir lyfta brúnum þegar efri helmingur ungu konunnar hverfur inn í reykháfinn. Hún var nokkuð sæt, líka, sagði J.P.

Þegar hún hafði lokið við vinnuna pakkaði hún dótinu saman í teppið. Hún tók við ávísun frá vini J.P. sem foreldrar hans höfðu úthlutað henni. Síðan spyr hún vininn hvort hann langi að kyssa hana. „Það á að veita góða lukku,“ segir hún. Þetta gerir útslagið fyrir J.P. Vinur hans ranghvolfir augunum. Hann grínast aðeins meira. Síðan, líklegast þegar hann byrjar að roðna, kyssir hann hana á kinnina. Á þessu augnabliki, gerir J.P. upp hug sinn um svolítið. Hann lagði bjórinn frá sér. Hann stóð upp úr sófanum. Hann gekk að ungu konunni einmitt þegar hún var að ganga út um dyrnar.

„Fæ ég líka?“ segir J.P. við hana.

Hún skimaði augunum yfir hann. J.P. segir að hann hafi fundið hjartað slá. Nafn ungu konunnar, eins og síðar kom í ljós, var Roxy.

„Allt í lagi,“ segir Roxy. „Hví ekki? Ég á einhverja auka koss til.“ Og hún smellti einum góðum beint á munninn á honum og snerist svo á hæli.

Sísvona, á einu augnabliki, elti J.P. hana út á veröndina. Hann hélt dyrunum opnum fyrir hana. Hann gekk niður tröppurnar með henni og út að innkeyrslunni, þar sem hún hafði lagt sendiferðabílnum. Þetta var eitthvað sem hann fékk ekki ráðið. Ekkert annað í heiminum skipti máli. Hann vissi að hann hefði kynnst einhverjum sem gæti fengið líkama hans til að skjálfa. Hann fann ennþá fyrir kossi hennar brenna á vörunum, o.s.frv. J.P. gat ekki einbeitt sér að neinu. Hann var uppfullur af tilfinningum sem toguðu hann í allar áttir.

Hann opnaði bakdyrnar á sendiferðabílnum. Hann hjálpaði henni að setja dótið inn í bílinn. „Takk,“ sagði hún. Síðan fleipraði hann því út úr sér - að hann vildi hitta hana aftur. Myndi hún vilja fara með honum í bíó einhvern tíma? Hann hafði líka áttað sig á því hvað hann vildi gera í lífinu. Hann langaði að gera það sama og hún. Hann langaði að verða reykháfahreinsari. En hann sagði henni ekki frá því fyrr en seinna.

J.P. segir að hún hafi sett hendur á mjaðmir og rannsakað hann frá hvirfli til ilja. Síðan fann hún nafnspjald í framsætinu á bílnum. Hún rétti honum það. Hún sagði, „Hringdu í þetta númer eftir klukkan tíu í kvöld. Þá getum við talað saman. Ég þarf að fara núna.“ Hún setti upp pípuhattinn og tók hann síðan niður. Hún leit einu sinni í viðbót á J.P. Hún hlýtur að hafa verið ánægð með það sem hún sá, því að í þetta skipti glotti hún. Hann sagði henni hún væri með einhvern blett á munninum. Síðan steig hún inn í bíli, flautaði, og keyrði í burtu.

„Hvað svo?“ segi ég. „Ekki hætta núna, J.P.“

Ég var áhugasamur. En ég hefði hlustað þótt hann hefði verið að tala um það hvernig hann hefði einn góðan veðurdag tekið upp á því að æfa skeifukast.

Það rigndi í gærkvöld. Skýin hrannast upp við hólana meðfram dalnum. J.P. ræskir sig og horfir á hólana og skýin. Hann grípur um hökuna á sér. Síðan heldur hann áfram með söguna.

Roxy byrjar að fara með honum á stefnumót. Og smám saman tekst honum að fá hana til að leyfa sér að koma með henni í vinnuna. En Roxy vinnur með föður sínum og bróður og það er rétt næg vinna fyrir þau þrjú. Þau þurftu ekki á auka manni að halda. Auk þess, hver var þessi gaur J.P.? J.P. hvað? Gættu þín, sögðu þeir henni.

Svo hún og J.P. fóru nokkrum sinnum saman í bíó. Þau fóru nokkrum sinnum út að dansa. En aðallega snerist tilhugalíf þeirra um að þrífa reykháfa saman. Fyrr en varir, segir J.P. eru þau farin að tala um að ganga í hnapphelduna. Og eftir einhvern tíma gera þau það, þau gifta sig. Nýi tengdapabbi hans J.P. gerir hann að meðeiganda í fyrirtækinu. Eftir u.þ.b. ár eða svo, eignast Roxy barn. Hún hættir að vera reykháfahreinsari. Hvað sem öðru líður, hefur hún hætt að vinna. Fljótlega eignast hún annað barn. J.P. er kominn á miðjan þrítugsaldur núna. Hann er að kaupa hús. Hann segir að hann hafi verið ánægður með lífið. „Ég var ánægður með hvernig hlutirnir voru að ganga,“ segir hann. „Ég hafði allt sem ég vildi. Ég átti konu og börn sem ég elskaði og ég var að gera það sem mig langaði til að gera í lífinu.“ En af einhverri ástæðu - hver veit hvers vegna við gerum það sem við gerum? - færist drykkjan í aukana. Í langan tíma drekkur hann bjór og ekkert nema bjór. Hvaða bjór sem er - það skipti engu máli. Hann segist hafa getað drukkið bjór allan sólarhringinn. Hann drakk bjór á nóttunni á meðan hann horfði á sjónvarpið. Vissulega drakk hann af og til eitthvað sterkt. En það var bara ef þau fóru út að skemmta sér, en það var ekki oft, eða þá að það voru gestir í heimsókn. Síðan kemur tími, hann veit ekki hvers vegna, þegar hann skiptir út bjór fyrir gin og tonik. Og hann fór að fá sér meira gin og tonik eftir kvöldmat, þegar hann sat fyrir framan sjónvarpið. Hann var alltaf með glas af gin og tonik við höndina. Hann segir að hann honum hafi í alvöru fundist það gott á bragðið. Hann fór að stoppa við eftir vinnu til fá sér að drekka , áður en hann hélt heim til að fá sér meira að drekka. Síðan fór hann að missa út nokkrar kvöldmáltíðir. Hann einfaldlega mætti ekki. Eða þá að hann mætti, en þá vildi hann ekki borða neitt. Hann hefði étið sig saddann af snakki á barnum. Stundum gekk hann inn um dyrnar og af engri ástæðu fleygði hann nestisboxinu sínu þvert yfir stofuna. Þegar Roxy æpti á hann, sneri hann sér við og fór aftur út. Hann færði drykkjutímana sína til snemma eftirmiðdags þegar hann átti að vera að vinna. Hann segir mér að hann hafi byrjað morgnana á nokkrum drykkjum. Hann hellti í sig áður en hann burstaði tennurnar. Síðan drakk hann kaffi. Hann fór i vinnuna með hitabrúsa fullan af vodka í nestisboxinu.


J.P. hættir að tala. Hann bara steinþagnar. Hvað er í gangi? Ég er að hlusta. Það er að hjálpa mér að slaka á. Það er að dreifa huganum frá mínum eigin aðstæðum. Eftir stundarkorn, segi ég, „Hvað í fjandanum? Haltu áfram, J.P.“ Hann er að toga í hökuna á sér. En von bráðar heldur hann áfram að tala.

J.P. og Roxy eru byrjuð að rífast fyrir alvöru núna. Ég meina rífast. J.P. segir að hún hafi einu sinni kýlt hann í andlitið og nefbrotið hann. „Líttu á þetta,“ segir hann. „Hérna.“ Hann sýnir mér línu við nefbeinið. „Þetta er brotið nef.“ Hann launaði henni greiðann. Hann tók hana úr axlarlið. Í annað skipti sprengdi hann á henni vörina. Þau börðu hvort annað fyrir framan börnin. Þetta fór úr böndunum. En hann hélt áfram að drekka. Hann gat ekki hætt. Og ekkert gat fengið hann til að hætta. Ekki einu sinni það að pabbi hennar Roxy og bróðir hennar hótuðu að berja hann í spað. Þeir sögðu Roxy að hún ætti að taka krakkana og flytja út. En Roxy sagði að þetta væri hennar vandamál. Hún kom sér í þetta og hún ætlaði sér að leysa úr þessu.

Nú verður J.P. aftur mjög þögull. Hann rekur upp kryppu og hniprar sig saman í stólnum. Hann horfir á bíl keyra niður götuna á milli okkar og hólana.

Ég segi, „Ég vil heyra restina, J.P. Haltu áfram að tala.“

„Ég bara veit það ekki,“ segir hann. Hann ypptir öxlum.

„Þetta er allt í lagi,“ segi ég. Það sem ég á við er að það sé allt í lagi að halda áfram með söguna. „Haltu áfram, J.P.“

Eitt af því sem hún gerði til að reyna að laga hlutina, segir J.P., var að fá sér kærasta. J.P. langar að vita hvernig hún fann sér tíma fyrir það með bæði húsið og krakkana til að hugsa um.

Ég lít hissa á hann. Hann er fullorðinn maður. „Ef manni langar til þess,“ segi ég, „þá finnur maður tíma. Maður gefur sér tíma.“

J.P. hristir höfuðið. „Ætli það ekki,“ segir hann.

Allavegana, þá komst hann að því - þetta með kærastann hennar Roxy - og hann sturlaðist. Hann nær að koma giftingarhringnum af fingrinum á Roxy. Og þegar hann nær því, þá klippir hann hann í marga búta með vírklippum. Gaman að þessu. Þau höfðu nú þegar tekið nokkrar lotur i þetta skiptið. Á leiðinni í vinnuna daginn eftir er hann handtekinn fyrir að keyra undir áhrifum. Hann missir bílprófið. Hann getur ekki keyrt trukkinn í vinnuna lengur. Það var eins gott, segir hann. Hann hafði nú þegar dottið ofan af húsþaki vikuna áður og brotið á sér þumalputtann. Það var bara tímaspursmál hvenær hann myndi hálsbrjóta sig, segir hann.

Hann var hérna á Frank Martin í afvötnun og til að átta sig á því hvernig hann gæti komið lífi sínu aftur í samt lag. En hann var ekki nauðungarvistaður, ekkert frekar en ég. Við gátum farið hvenær sem við vildum. En það var mælt með að minnsta kosti viku vist, og manni var, eins og þeir orðuðu það, „stranglega ráðlagt“ að vera í tvær vikur eða mánuð.

Eins og ég sagði þá er þetta annað skiptið mitt á Frank Martin. Þegar ég var að reyna að skrifa ávísun upp á eina viku fram í tímann, sagði Frank Martin við mig, „Hátíðirnar eru alltaf erfiðar. Kannski þú ættir að hugsa um að vera aðeins lengur í þetta skiptið? Hvað með t.d. tvær vikur. Geturðu verið hérna í tvær vikur? Hugsaðu allavega um það. Þú þarft ekki að ákveða neitt núna,“ sagði hann. Hann hélt þumalputtanum á ávísuninni og ég skrifaði nafnið mitt. Síðan fylgdi ég kærustunni minni að framdyrunum og sagði bless. „Bless,“ sagði hún, síðan rakst hún utan í dyrakarminn og hrasaði út á veröndina. Það er síðla kvölds. Það er rigning. Ég geng frá hurðinni og að glugganum. Ég dreg gluggatjöldin frá og horfi á hana keyra í burtu. Hún er í bílnum mínum. Hún er full. En ég er fullur líka, og það er ekkert sem ég get gert. Ég fikra mig áfram að stórum stól sem er nálægt ofninum og sest niður. Nokkrir menn líta upp frá sjónvarpinu. Síðan snúa þeir sér aftur að því sem þeir voru að horfa á. Ég bara sit þarna. Af og til lít ég upp á eitthvað sem er í gangi á skjánum.

Seinna sama dag opnast framdyrnar með miklum látum og J.P. er ýtt inn fyrir af tveimur stórum mönnum - tengdaföður hans og tengdabróður, eins og ég varð vitur um seinna. Þeir stýrðu J.P. handan gangsins. Gamli maðurinn stimplaði hann inn og lét Frank Martin hafa ávísun. Síðan hjálpuðu mennirnir tveir J.P. upp stigann. Ég býst við að þeir hafa lagt hann í rúmið. Fljótlega komu gamli maðurinn og hinn maðurinn niður stigann og gengu í átt að framdyrunum. Þeir virtust ekki geta verið hérna mínútu lengur. Það var eins og þeir gætu ekki beðið eftir að þvo hendurnar af þessu öllu saman. Ég álasa þá ekki. Alls ekki. Ég veit ekki hvernig ég myndi haga mér ef ég væri í þeirra sporum.

Einum og hálfum degi seinna hittumst við J.P. á veröndinni. Við tökumst í hendur og minnumst eitthvað á veðrið. J.P. er með skjálfta. Við fáum okkur sæti og lyftum fótunum upp á handriðið. Við höllum okkur aftur í stólunum eins og við séum bara þarna til að slaka á, líkt og við séum í þann mund að fara að ræða um fuglaveiðihundana okkar. Það er þá sem J.P. byrjar að segja mér söguna sína.

Það er kalt úti, en ekki svo kalt. Það er dálítið skýjað. Frank Martin kemur út til að klára vindilinn sinn. Hann er klæddur í peysu sem er hneppt alla leið upp. Frank Martin er lágvaxinn og þungur. Hann er með krullað grátt hár og lítinn haus. Hausinn á honum er of lítill fyrir restina af líkamanum. Frank Martin setur vindilinn upp í sig og stendur með hendurnar krosslagðar yfir bringuna. Hann fitlar aðeins við vindilinn í munninum á sér og horfir yfir dalinn. Hann stendur þarna eins og hnefaleikari, eins og einhver sem veit hvernig er í pottinn búið.

J.P. verður aftur þögull. Ég meina, hann virðist varla anda. Ég kasta sígarettunni minni í kolafötuna og horfi fast á J.P., sem sígur aðeins neðar í stólinn sinn. J.P. lyftir upp kraganum á skyrtunni. Hvað í fjandanum er í gangi? velti ég fyrir mér. Frank Martin lætur hendurnar niður með síðunum og púar vindilinn sinn. Hann leyfir reyknum að leka út um munnvikin. Síðan lyftir hann hökunni í átt að hólunum og segir „Jack London átti einu sinni stórt hús þarna hinum megin við dalinn. Einmitt þarna handan við græna hólinn sem þið eruð að horfa á. En áfengi drap hann. Þið getið lært af því. Hann var meiri maður en nokkur okkar. En hann réði ekki við þetta heldur.“ Frank Martin lítur á það sem eftir er af vindlinum. Það er slokknað í honum. Hann fleygir honum í fötuna. „Ef þið viljið lesa eitthvað á meðan þið eruð hérna, þá mæli ég með bókinni hans, Óbyggðirnar kalla. Vitiði hvaða bók ég á við? Við erum með hana inni ef ykkur langar til að lesa eitthvað. Hún er um dýr sem er hálfur hundur og hálfur úlfur. Þá er messunni lokið,“ segir hann, og hífur upp um sig buxurnar og togar peysuna niður. „Ég ætla inn,“ segir hann. „Sé ykkur í hádegismat.“

„Mér líður eins og pöddu þegar hann er í kringum mig,“ segir J.P. „Hann lætur mér líða eins og pöddu.“ J.P. hristir höfuðið. Síðan segir hann, „Jack London. Þvílíkt nafn! Ég vildi óska þess að ég hefði nafn eins og hann. Í staðinn fyrir nafnið sem ég er með.“

Konan mín kom með mig hingað í fyrsta skipti. Það var þegar við vorum saman, að reyna að leysa úr okkar málum. Hún kom með mig hingað og staldraði við í einn eða tvo tíma, talaði við Frank Martin í einrúmi. Síðan fór hún. Morguninn eftir tók Frank Martin mig tali og sagði, „Við getum hjálpað þér. Ef þú vilt hjálp og ert tilbúinn að hlusta á það sem við höfum að segja.“ En ég vissi ekki hvort þeir gætu hjálpað mér eða ekki. Hluti af mér vildi hjálp. En svo var líka annar hluti.

Í þetta skiptið var það kærastan mín sem að skutlaði mér hingað.

Hún var að keyra bílinn minn. Hún keyrði okkur í gegnum óveður. Við drukkum kampavín alla leiðina. Við vorum bæði full þegar hún lagði í innkeyrsluna. Hún ætlaði sér að skilja mig eftir, snúa við, og keyra aftur heim. Hún hafði ýmislegt að gera. Eitt af því sem hún þurfti að gera var að fara í vinnuna daginn eftir. Hún var ritari. Hún var í ágætri stöðu hjá raftækjafyrirtæki. Hún átti líka kjaftforan unglingsstrák. Ég vildi að hún myndi leigja sér herbergi í bænum, verja nóttinni, og keyra svo aftur heim. Ég veit ekki hvort hún hafi leigt herbergið eða ekki. Ég hef ekki heyrt frá henni síðan um daginn þegar hún leiddi mig upp stigann og gekk með mig inn á skrifstofuna hans Frank Martin og sagði, „Gettu hver er mættur.“

En ég var ekki reiður út í hana. Í fyrsta lagi hafði hún ekki hugmynd um hvað hún var að koma sér út í þegar hún sagði að ég mætti gista hjá henni eftir að konan mín henti mér út. Ég vorkenndi henni. Ástæðan fyrir því að ég vorkenndi henni var vegna þess að á Þorláksmessu fékk hún niðurstöðurnar úr frumustrokinu og það voru ekki góðar fréttir. Hún þurfti að fara aftur til læknisins, og það sem fyrst. Slíkar fréttir voru næg ástæða fyrir okkur til að byrja að drekka. Svo við fórum og helltum okkur full. Og á aðfangadag vorum við ennþá full. Við þurftum að fara út að borða vegna þess að hún var ekki í skapi til að elda. Við tvö og kjaftfori unglingsstrákurinn hennar opnuðum nokkrar gjafir og síðan fórum við út að borða á steikhúsi nálægt íbúðinni hennar. Ég var ekki svangur. Ég fékk mér smá súpu og eina vorrúllu. Ég kláraði eina vínflösku með súpunni. Hún fékk sér líka vín. Síðan byrjuðum við á Blóðugu Maríunum. Næstu tvo dagana át ég ekkert nema salthnetur. En ég drakk mikið viskí. Svo sagði ég við hana, „Sæta mín, ég held ég þurfi að taka saman föggur mínar. Ég held ég þurfi að fara aftur á Frank Martin.“ Hún reyndi að útskýra fyrir syni sínum að hún yrði í burtu í einhvern tíma og hann þyrfti því að redda sér mat sjálfur. En þegar við erum á leiðinni út um dyrnar, þá öskrar þessi kjaftfori strákur á okkur. Hann öskrar, „Til fjandans með ykkur! Ég vona að þið komið aldrei aftur. Ég vona að þið drepið ykkur!“ Hugsaðu þér þennan strák!

Áður en við keyrðum út fyrir bæinn fékk ég hana til að stoppa í vínbúðinni svo ég gæti keypt kampavín handa okkur. Við stoppuðum annars staðar til að kaupa plastglös. Síðan keyptum við fötu af steiktum kjúkling. Við héldum af stað til Frank Martin í óveðri, drekkandi og hlustandi á tónlist. Hún keyrði. Ég leit eftir útvarpinu og hellti í glösin. Við reyndum að gera gott úr þessu, en við vorum líka döpur. Svo höfðum við auðvitað steikta kjúklinginn, en við borðuðum ekkert af honum.

Ég býst við að hún hafi komist klakklaust heim. Ég held ég hefði frétt eitthvað ef svo hefði ekki verið. En hún hefur ekkert hringt, og ég hef ekki hringt í hana. Kannski hefur hún fengið einhverjar fréttir frá lækninum. En kannski hefur hún ekkert heyrt frá honum. Kannski var þetta bara einhver misskilningur. Kannski voru niðurstöðurnar úr frumustrokinu ætlaðar einhverjum öðrum. En hún er með bílinn minn, og ég á eitthvað dót heima hjá henni. Ég veit að við munum hittast aftur.

Þeir hringja gamalli bjöllu hérna þegar þeir kalla í matartíma. J.P. og ég stöndum upp frá stólunum og förum inn. Það er farið að kólna hvort eð er. Við getum séð andardráttinn berast frá okkur þegar við tölum.

Á gamlársmorgun reyni ég að hringja í konuna mína. Það svarar ekki. Það er allt í lagi. En jafnvel þótt það væri ekki í lagi, hvað ætti ég að gera? Síðast þegar við töluðum símleiðis, fyrir nokkrum vikum síðan, öskruðum við á hvort annað. Ég lét hana aðeins heyra það. „Fyllibytta!“ sagði hún, og hengdi upp tólið.

En mig langar að tala við hana núna. Eitthvað þarf að gera varðandi dótið mitt. Ég átti ýmislegt heima hjá henni líka.

Einn af mönnunum hérna er náungi sem að ferðast. Hann fer til Evrópu og víða. Það er allavega það sem hann segir. Viðskiptaferðir, segir hann. Hann segir líka að hann hafi fulla stjórn á drykkjunni og að hann hafi ekki hugmynd um hvað hann sé að gera hérna á Frank Martin. En hann man ekki hvernig hann komst hingað. Hann grínast með þetta, þetta með að muna ekki. „Hver sem er getur getur upplifað minnisleysi,“ segir hann. „Það sannar ekki neitt.“ Hann er ekki fyllibytta - hann segir okkur þetta og við hlustum. „Það er stór ásökun að hengja á mann,“ segir hann. „Svoleiðis ásökun getur eyðilegt framtíð manns og frama.“ Hann segir að ef hann myndi bara halda sig við viskí og vatn, engan klaka, þá myndi hann aldrei missa minnið. Það er klakinn sem þeir setja út í drykkinn sem gerir útslagið. „Hvern þekkirðu í Egyptalandi?“ spyr hann mig. „Ég gæti haft not fyrir nokkur nöfn þarna úti.“

Á gamlárskvöld fáum við steik og bakaðar kartöflur í matinn. Ég er að fá matarlystina aftur. Ég tæmi allt á disknum og gæti hæglega borðað meira. Ég lít yfir á diskinn hans Tiny. Fjandinn, ef hann hefur varla hreyft við matnum. Steikin situr bara á disknum. Tiny er ekki sami gamli Tiny. Aumingja karlinn hafði ætlað sér að vera heima í kvöld. Hann hafði ætlað sér að sitja fyrir framan sjónvarpið í slopp og inniskóm, haldandi í höndina á konunni sinni. Nú er hann hræddur við að fara. Ég skil það vel. Eitt slag þýðir að það sé von á öðru. Tiny hefur ekki sagt neinar klikkaðar sögur af sjálfum sér síðan að þetta gerðist. Hann hefur lítið sagt og er oftast einn. Ég spyr hann hvort ég geti fengið steikina hans, og hann ýtir disknum yfir til mín.

Sumir okkar eru ennþá vakandi, sitjandi fyrir framan sjónvarpið, horfandi á Times Square, þegar Frank kemur inn og sýnir okkur kökuna. Hann fer með hana á milli manna og sýnir hverjum og einum. Ég veit að hann bakaði hana ekki sjálfur. Þetta er bara bakarískaka. En þetta er kaka samt sem áður. Þetta er stór hvít kaka. Efst á kökunni er áletrun í bleikum stöfum. Á henni stendur, GLEÐILEGT NÝTT ÁR - EINN DAG Í EINU.

„Ég vil enga andskotans köku,“ segir náunginn sem fer til Evrópu og víða. „Hvar er kampavínið?“ segir hann og hlær.

Við förum allir inn í matsalinn. Frank Martin sker kökuna. Ég sit við hliðina á J.P. Hann fær sér tvær sneiðar og drekkur kók. Ég fæ mér eina sneið, og vef aðra í servíettu, svo ég hafi eitthvað á eftir.

J.P. kveikir sér í sígarettu - hendurnar hans eru hættar að skjálfa - og hann segir mér að konan hans komi í fyrramálið, á nýársdag.

„Það er frábært,“ segi ég. Ég kinka kolli. Ég sleiki glassúr af puttunum á mér.

„Það eru góðar fréttir, J.P.“

„Ég skal kynna þig fyrir henni,“ segir hann.

„Ég hlakka til,“ segi ég.

Við biðjum góða nótt. Við óskum hvor öðrum gleðilegt nýtt ár. Ég þríf mér um hendurnar með servíettu. Við tökumst í hendur.

Ég fer að símanum, set tíkall í tólið, og hringi kollekt í konuna mína. En það svarar ekki heldur í þetta skiptið. Ég spái í að hringja í kærustuna mína og ég er byrjaður að stimpla inn númerið þegar ég átta mig á að mig langar alls ekki að tala við hana. Hún er örugglega heima að horfa á það sama og ég hef verið að horfa á í sjónvarpinu. Mig langar allavega ekki að tala við hana. Ég vona að það sé í lagi með hana. En ef það er eitthvað að hjá henni, þá vil ég ekki vita af því.

Eftir morgunmat, förum við J.P. út á veröndina og drekkum kaffi. Það er heiðskírt úti, en samt nógu kalt til að klæðast peysu og jakka.

„Hún spurði mig hvort hún ætti að taka krakka hana með,“ segir J.P. „Ég sagði henni að hún ætti að skilja krakkana eftir heima. Geturðu ímyndað þér? Guð minn góður, ég vil ekki fá krakkana hingað.“

Við notum kolafötuna fyrir öskubakka. Við horfum yfir dalinn þar sem Jack London átti eitt sinn heima. Við erum að drekka kaffið okkar þegar bíll snýr út af veginum og leggur í innkeyrsluna.

„Hún er komin!“ segir J.P. Hann leggur bollann sinn við hlið stólsins. Hann stendur upp og gengur niður tröppurnar. Ég sé konu leggja bílnum og setja í handbremsu. Ég sé J.P. opna dyrnar. Ég horfi á hana stíga út úr bílnum, og ég sé þau fallast í faðma. Ég horfi undan. Síðan horfi ég á þau. J.P. tekur undir handlegginn á henni og þau ganga upp stigann. Þessi kona nefbraut einu sinni mann. Hún á tvo krakka, hefur ýmis vandamál að baki, en hún elskar þennan mann sem heldur undir handlegginn á henni. Ég stend upp úr stólnum.

„Þetta er vinur minn,“ segir J.P. við konuna sína. ,,Hey, þetta er Roxy.“

Roxy tekur í höndina á mér. Hún er hávaxin, falleg kona með prjónahúfu á höfðinu. Hún er klædd í kápu, þykka peysu, og buxur. Ég minnist þess sem J.P. sagði mér um kærastann og vírklippurnar. Ég sé engan giftingarhring. Ég býst við að hann sé í molum einhvers staðar. Hún er með breiðar hendur og stóra hnúa. Þetta er kona sem getur steytt hnefana ef hún þarf þess.

„Ég hef heyrt talað um þig,“ segi ég. ,,J.P. sagði mér hvernig þið kynntust. Eitthvað varðandi reykháfa, sagði J.P.“

„Já, reykháfa,“ segir hún. „Það er örugglega ýmislegt annað sem hann hefur ekki sagt þér,“ segir hún. „Ég þori að veðja að hann hefur ekki sagt þér frá öllu saman,“ segir hún og hlær. Síðan - hún getur ekki beðið lengur - setur hún arminn undir J.P. og kyssir hann á kinnina. Þau færa sig í áttina að dyrunum. „Gaman að kynnast þér,“ segir hún. „Hey, sagði hann þér að hann er besti reykháfahreinsarinn í bænum?“

„Láttu ekki svona, Roxy,“ segir J.P. Hann er með höndina á hurðarhúninum.

„Hann sagði mér að þú hafir kennt honum allt sem hann veit,“ segi ég.

„Ja, svo mikið er víst,“ segir hún. Hún hlær aftur. En það er eins og hún sé að hugsa um eitthvað annað. J.P. snýr hurðarhúninum. Roxy tekur um höndina á honum. „Joe, getum við ekki fengið okkur hádegismat í bænum? Get ég ekki boðið þér eitthvað út að borða?“

J.P. ræskir sig. Hann segir, „Það er ekki enn komin vika.“ Hann sleppir höndinni af hurðarhúninum og lyftir fingrunum að hökunni.

„Ég held að þeir vildu frekar að ég yfirgæfi ekki staðinn alveg strax. Við getum fengið okkur kaffi hér,“ segir hann.

„Það er allt í lagi,“ segir hún. Hún gýtur augunum aftur að mér. „Það gleður mig að Joe hafi eignast vin. Gaman að kynnast þér,“ segir hún.

Þau halda inn. Ég veit að það er heimskulegt, en ég geri það samt sem áður. ,,Roxy,“ segi ég. Og þau stoppa í dyragættinni og horfa á mig. ,,Ég þarf á smá heppni að halda,“ segi ég. ,,Án gríns. Koss myndi gera mér gott.“

J.P. horfir niður. Hann heldur ennþá um hurðarhúninn, þó að hurðin sé opin. Hann snýr húninum fram og aftur. En ég held áfram að horfa á hana. Roxy grettir sig. „Ég er ekki reykháfahreinsari lengur,“ segir hún. „Hef ekki verið það í mörg ár. Sagði Joe þér það ekki? En vissulega skal ég kyssa þig, ekkert mál.“

Hún færir sig. Hún tekur utan um axlirnar á mér - ég er stór náungi - og hún plantar kossi á varirnar á mér. „Hvernig er þetta?“ segir hún.

„Þetta er fínt,“ segi ég.

„Lítið mál,“ segir hún. Hún heldur ennþá utan um axlirnar á mér. Hún horfir beint í augun á mér. „Gangi þér vel,“ segir hún, og síðan sleppir hún takinu.

„Sjáumst seinna, vinur,“ segir J.P. Hann opnar dyrnar upp á gátt, og þau ganga inn.

Ég sest niður við framtröppurnar og kveiki mér í sígarettu. Ég horfi höndina á mér og síðan blæs ég á eldspýtuna. Ég er með skjálfta. Það byrjaði í morgun. Mig langaði í eitthvað að drekka í morgun. Það er niðurdrepandi, en ég minntist ekkert á það við J.P. Ég reyni að hugsa um eitthvað annað.

Ég er að hugsa um reykháfahreinsara - allt sem að J.P. sagði mér - þegar ég byrja af einhverri ástæðu að hugsa um hús sem ég og konan mín bjuggum einu sinni í. Það var enginn reykháfur á því húsi, svo að ég veit ekki hvers vegna ég fer að hugsa um það núna. En ég man eftir húsinu, og að við höfðum aðeins átt heima þar í nokkrar vikur, þegar einn daginn, heyrði ég eitthvað hljóð fyrir utan. Þetta var á sunnudagsmorgni og það var ennþá dimmt inni í svefnherbergi. En það barst dauf birta inn um svefnherbergisgluggann. Ég lagði við hlustir. Ég heyrði eitthvað skrapast utan í vegginn á húsinu. Ég stökk framúr rúminu til að gá hvað það gæti verið.

„Guð minn eini!“ segir konan mín, þar sem hún situr á rúminu og sveiflar hárinu frá andlitinu. Síðan fer hún að hlæja. „Þetta er herra Venturini,“ segir hún. „Ég gleymdi að segja þér. Hann sagði að hann ætlaði að koma í dag og mála húsið. Snemma. Áður en það verður of heitt. Ég steingleymdi því,“ segir hún og hlær. „Komdu aftur upp í rúmið, elskan. Þetta er bara herra Venturini.“

„Eftir smástund,“ segi ég.

Ég dreg gluggatjöldin frá glugganum Það stendur gamall maður fyrir utan. Hann er í hvítum samfestingi og stendur við hliðina á stiganum sínum. Sólin er rétt byrjuð að rísa yfir fjöllin. Ég og gamli maðurinn horfum hvor á annan. Þetta er leigusalinn, vissulega - gamli maðurinn í samfestingnum. En samfestingurinn er of stór á hann. Og hann er líka órakaður. Og hann er með derhúfu til að hylja sköllóttan kollinn. Fjandinn ef hann er ekki skrítinn gamall karl, hugsa ég. Og það kemur yfir mig sæluvíma að ég sé ekki hann - að ég sé ég og að ég sé inn í þessu svefnherbergi með konunni minni. Hann lyftir þumalputta í átt að sólinni. Hann þykist þurrka sér um ennið. Hann er að láta mig vita að hann hafi ekki mikinn tíma. Það myndast glott á vörunum hans. Og það er þá sem ég átta ég mig á því að ég sé nakinn. Ég lít niður á sjálfan mig. Ég lít aftur upp á hann og yppti öxlum. Við hverju bjóst hann?

Konan mín hlær. „Komdu … ,“ segir hún. „Komdu aftur í rúmið eins og skot. Á stundinni. Komdu aftur uppí.“

Ég sleppi gluggatjöldunum. En ég stend áfram við gluggann. Ég sé gamla manninn kinka kolli með sjálfum sér líkt og hann sé að segja, „Áfram með þig strákur, komdu þér aftur í rúmið. Ég skil þetta.“ Hann togar í derið á húfunni. Síðan kemur hann sér að verki. Hann tekur upp fötuna. Hann byrjar að klifra stigann.

Núna halla ég mér aftur í tröppunum og krosslegg fæturna. Kannski reyni ég að hringja aftur í konuna mína seinna í dag. Og síðan hringi til að vita hvað er í gangi með kærustuna mína. En ég vil ekki fá kjaftfora strákinn hennar á línuna. Ef ég hringi, vona ég að hann sé einhvers staðar úti að gera hvað sem hann gerir þegar hann er ekki heima. Ég reyni að muna hvort ég hafi einhvern tímann lesið einhverjar bækur eftir Jack London. Ég man það ekki. En ég las smásögu eftir hann í menntaskóla. „Að kynda eld,“ hét hún. Maður í Yukon er að frjósa í hel. Hugsið ykkur - hann er í alvörunni að fara að frjósa til dauða ef hann nær ekki að kveikja eld. Með eldinum getur hann þurrkað sokkana sína, og dótið sitt, og haldið á sér hita.

Hann nær að kveikja eld, en síðan kemur eitthvað fyrir. Það hrynur snjóskafl ofan á eldinn. Það slokknar í honum. Á meðan er farið að kólna. Nóttin er að skella á.

Ég tek nokkra aura upp úr vasanum. Ég hringi fyrst í konuna mína. Ef hún svarar, óska ég henni gleðilegs nýs árs. En það er allt og sumt. Ég mun ekki brydda upp á málum. Ég mun ekki hækka róminn. Ég mun ekki bíta á agnið, þótt hún byrji. Hún mun spyrja mig hvaðan ég er að hringja, og ég mun þurfa að segja henni það. Ég mun ekkert minnast á nýársheit. Það er engin leið að grínast með þetta. Þegar ég er búinn að tala við hana, hringi ég í kærustuna mína. Kannski hringi ég í hana fyrst. Ég vona bara að ég fái ekki strákinn hennar á línuna. „Hæ sæta,“ segi ég þegar hún svarar. „Þetta er ég.“

Ísak Regal þýddi.

Herbergi að eilífu

Það er gamlárs, svo ég fæ stóra herbergið, átta dollara herbergi. En það virkar minna en það var; og þegar ég sit við gluggann, horfi út á regnið og bæinn, þá veit ég að biðin nagar mig að innan á ný.

  • Instagram
  • Facebook
bottom of page