top of page

Bylgjulengdir
Lilja var mætt á fundinn korter í. Hún bjóst við að vera fyrst á svæðið — en fólk var þegar farið að tínast inn. Þær örfáu hræður sem voru sestar voru á svipinn eins og þær væru á leiðinni í aftöku. Þeir sem voru í kaffinu komu inn á harðahlaupum, settu skál á borðið við dyrnar, fóru aftur út og komu inn með heitar te- og kaffikönnur.

Bjöggi var mættur. Hann stóð upp og tók sér stöðu við kaffikönnuna og þrýsti á handfangið. Heitur vökvi streymdi ofan í bollann og lyktin blandaðist við fúkkann í herberginu. Hann var klæddur í ljósbláa skyrtu girta ofan í fínstraujaðar svartar buxur. Hann var í lögfræðinámi og klæddist alltaf jakkafötum á fundunum.

„Hvernig gengur hjá þér?“ spurði hann Lilju sem stóð fyrir aftan hann og beið eftir að komast að. Hann hafði verið að reyna að sofa hjá henni síðan hann byrjaði í samtökunul.

„Vel bara.“

„Ertu með einhverja tilbúna ræðu?“

„Kannski,“ sagði hún. „Kemur í ljós.“ Lilja fór með kaffið sitt í öftustu sætaröðina. Edda, Brynja og Kata mættu á slaginu og settust við hliðina á henni. Brynja kyssti Lilju á kinnina á meðan Lilja gaut augunum á Bjögga sem sat fremst með skjalatöskuna sína undir sætinu.

Hann var fyrstur til að tala. Hann talaði um týnda strákinn sem hann var áður en hann varð edrú, um hversu vesall og skemmdur hann var. Hann talaði um óttann. Um þakklætið fyrir það að geta vaknað á hverjum degi, horft í spegil og verið sáttur við manninn sem horfði á hann til baka. Hann klóraði sér aftan á hnakkanum á meðan hann talaði. Og einu sinni þurrkaði hann svitadropa af enninu. Þau voru stödd í litlu og loftlausu herbergi í útjaðri Hafnarfjarðar, aðallega notað af þessum hópi — fíklum undir 25 ára.

Brynja var næst á eftir Bjögga að tala. Hún sagði sögur af klikkuðum djömmum og minna klikkuðum djömmum og hvernig þessi djömm enduðu á því að renna saman í eitt. Hún talaði um blackout, kókaíntúra, um foreldra sína, fólkið sem elskaði hana, fólkið sem hafnaði henni.

„Síðasta skipti sem ég fékk mér var ég á leiðinni í útskriftarveislu hjá frænku minni. Ég ætlaði bara að fá mér einn drykk skiluru og hafa það næs. Svo mundi ég að ég var með einhverjar Xanax-pillur í vasanum. Sem ég hélt ... að myndu einhvern veginn fá mig úr fíkninni. Fá mig til að slaka á og hætta að drekka. Ég var í blackouti í þrjá daga. Keyrði heim ... mamma og pabbi voru svo áhyggjufull. Þau héldu svo að ég hefði fundið guð þegar ég byrjaði hérna og fyrir þeim er það verra en að vera í neyslu. Þau halda náttla að trúað fólk sé fokking nöttað,“ sagði Brynja og hló út um nefið. „Ég sagði þeim að ég ætlaði að verða edrú. Og ári seinna líður mér miklu betur.“

Lilja var næst upp. Hún gekk hnarreist að púltinu, lagði hendurnar á hliðar þess og horfði yfir hópinn.

„Takk Bjöggi fyrir innganginn,“ sagði hún, ,,og aðrir sem hafa talað. Það er svo skrítið að mér finnst eins og Brynja sé tvíburasystirin sem mig langaði alltaf svo mikið í þegar ég var krakki. Án djóks,“ sagði Lilja, „við gerðum nákvæmlega sömu hlutina, erum verstar sjálfum okkur. Og eins og fleiri ... finnst okkur eins og við getum ekkert gert rétt. En ef maður hugsar af hverju maður gerir hlutina sem maður gerir. Þá skilur maður hversu veikur maður er í raun og veru, hversu gallaður. Það er líka gott að sleppa því að drekka áfengi, það er meira böggið.“

Lilja steig niður úr púltinu við hátt lófatak. Hún var orðin sponsor — búin að vera edrú í tvö ár. Hún bar sig eins og í vinnunni þar sem hún var vaktstjóri. Yfirmaður. Svala mamman sem hafði séð eitt og annað á lífsleiðinni. Hún blikkaði nýja strákinn sem var að mæta á sinn fyrsta fund áður en hún settist við hlið vinkvenna sinna.

Fundinum lauk á æðruleysisbæn og faðmlögum. Lilja spjallaði við nýja strákinn sem hrósaði henni fyrir ræðuna og hún hló og fann að Bjöggi horfði á hana. „Heyrðu, við sjáumst seinna,“ sagði hann við Lilju og gekk fram hjá henni, með skjalatösku í hendi. Hann blikkaði hana, en blikkið var eins og fjörfiskur.

„Sjáumst,“ sagði Lilja.

„Getur þú verið sponsorinn minn?“ spurði nýi strákurinn.

„Haha, nei,“ sagði Lilja. „Þú verður að finna þér karlmann í það.“

Lilja kom sér út, settist inn í bíl og tékkaði strax á símanum. Það fyrsta sem kom upp var mynd af ungum manni sem hún hafði verið að hitta fyrir nokkrum árum. Hann var skælbrosandi á myndinni með þykkt dökkt hár sem stóð út í loftið. Það voru 120 viðbrögð við myndinni — langflest hjörtu. Yfirskriftin var langur texti eftir stelpu sem hún hafði þekkt á svipuðum tíma og hún var að hitta manninn.

„Elsku Óttar,“ stóð. „Við höfðum þekkst síðan við vorum krakkar. Ég man vel eftir brosmilda stráknum í hverfinu.“ Lilja renndi augunum fljótt yfir textann en gat ekki meðtekið nema annað hvert orð.

Honum lauk á orðunum: „Hvíldu í friði elsku vinur.“

Lilja starði á myndina. Henni leið eins og hún hefði verið stungin í magann. Hún andaði inn og út og inn og út og inn og út og lagði símann frá sér í farþegasætið. Fólk var enn að tínast út af fundinum, og Lilja vildi ekki gráta fyrir framan það svo hún flýtti sér að setja í gang, og bakkaði út af bílastæðinu.

Það var heiðskírt úti. Fjöllin voru blá í fjarska og hafið kyrrt. Heimurinn fjarlægðist Lilju. Allt virtist langt í burtu.

Þegar hún var barn gat hún ímyndað sér heima þegar hún lokaði augunum. Hún gat séð þá flökta fyrir augnlokunum í alls konar litavefjum. Hún prófaði að loka augunum — en sá ekki neitt.

Hún var með nokkrar tilkynningar í símanum sem hún hundsaði en sendi á mömmu sína við næstu umferðarljós:

„Geturðu komið heim?“

Umferðin hrannaðist upp á leiðinni í bæinn. Andlit Óttars Orra var á sveimi í hausnum á Lilju. Hann var skælbrosandi á myndinni. Sveipur í hárinu. Fólk var alltaf að líkja honum við einhverja leikara. Hann minnti hana alltaf á James Dean hvernig hann bar sig. Fólk tók alltaf eftir honum þegar hann mætti á staðinn.

Lilja kom heim og kastaði af sér skónum í forstofunni. Hún klæddi sig úr jakkanum og hengdi hann á snagann. Hún tékkaði símann stöðugt eins og hún ætti von á skilaboðum frá fjölskyldu hans og ættingjum. En hún þekkti ekki fjölskyldu hans og ættingja. Þau vissu ekki einu sinni hver hún var.

Þegar hún var komin inn í herbergi klæddi hún sig varfærnislega úr öllu nema bol og nærbuxum og lagðist undir sæng og kreisti hana þétt að sér.

Hún fann fyrir kaffiþynnku og sljóleika og innan skamms var hún sofnuð. Í langan tíma gerðist ekkert, en hún lá á rúminu, og sökk dýpra og dýpra, hún varð sveitt og ringluð, og þegar hún opnaði augun sá hún Óttar sitjandi í stólnum gegnt rúminu. Hann setti hönd í þykkan hárlubbann og brosti til hennar.

„Hvar ertu?“ hvíslaði hún, en hann sagði ekki orð — hann horfði bara á hana og glotti. Svo hvarf hann. Útidyrahurðinni var skellt.

Lilja vaknaði í svitakófi við köll mömmu sinnar úr forstofunni.

„Lilja!? Halló?“

„Hæ,“ sagði hún lágt, eins og við sjálfa sig.

„Halló!!“ kallaði mamma hennar.

„Ég er inní herbergi.“

Mamma hennar birtist í dyragættinni.

„Lilja,“ sagði hún. „Hvað er að? Hvað gerðist?“

Lilja svaraði ekki.

„Hvað er að elskan mín?“ sagði hún og settist hjá henni.

„Vinur minn dó.“

Mamma hennar lagði töskuna frá sér. Hún strauk hárið á dóttur sinni. Dró lokk bakvið eyrað.

„Hver?“

„Óttar Orri,“ sagði hún. ,,Lenti í slysi á fokking mótorhjóli,“ sagði hún.

„Elskan mín … “

„Fokking stupid fokking mótorhjól,“ sagði Lilja. Mamma hennar, sat hjá henni og strauk hár hennar og bak þangað til andardrátturinn stilltist af. Gráturinn hljóðnaði. Lilja bjó yfir þeim hæfileika að geta grátið án þess að gefa frá sér hljóð. Þá láku heit tár niður kinnarnar og á koddann, límdust við andlitið.

TZZZZZZZ. TZZZZZZZ. TZZZZZZZ.

Sími mömmu hennar titraði. Kærastinn var að hringja. Hún slökkti á símanum, setti hann aftur í vasann án þess að svara.

„Viltu kaffi?“ spurði hún. „Te?“

„Kaffi,“ sagði Lilja, „Eða nei, te. Eða nei, kaffi.“

Mamma hennar fór fram í eldhús og kveikti á katlinum. Hún tékkaði aftur á símanum, mundi að það var slökkt, setti hann aftur í jakkann sem hún lagði á stólbakið og sótti bolla upp í skáp.


Vægur hiti sótti á Lilju. Hjartað sló hægt en stöðugt í brjóstinu. Hana langaði að hringja í Kollu, vinkonu sína, en löngunin hvarf jafn fljótt og hún kom þegar hún mundi hvar Kolla var og hvað hún væri örugglega að gera.

Lilja fletti sænginni af hrollköldum líkamanum og settist upp á rúminu.

„Viltu tala um þetta elskan mín?“ sagði mamma hennar sem virkaði langt í burtu.

„Nei,“ sagði Lilja þegar mamma hennar kom aftur inn með tebollann, og Lilja vafði báðum höndum utan um hann. Leyfði hitanum að bylgjast um sig.

„Ég sá það á Facebook. Stelpa sem ég þekki póstaði mynd af honum, með einhverjum texta ... “ Hún ætlaði að halda áfram, en orðin komu ekki fram á varirnar.

„Hvernig þekktust þið?“

Lilja sagði ekki neitt. Það mynduðust bylgjur í tevatninu þegar hún blés, eins og gárur á hafi við strönd. Bylgjurnar hrifsuðu hana aftur í tímann.

Hún sat á bar niðri í bæ með Kollu. Það var kliður í loftinu. Glymur í glösum — hljóðin í fólki að sjúga sígarettureyk ofan í lungu.

Ungur strákur, nokkrum árum eldri en þær, kom inn á reykingasvæðið, leit á Lilju og Kollu til skiptis og settist í básinn við hliðina á Lilju.

„Hæ,“ sagði hann og horfði á Lilju og setti bjórinn sinn á borðið. „Heitiru ekki Anna?“

„Ö nei,“ sagði hún.

„Hvað heitiru?“

„Lilja.“

„Ahh já! Lilja. Einmitt. Ég kannaðist eitthvað við þig.“

„Nú?“ sagði hún og komst ekki hjá því að brosa.

„Nei, bara. Þú ert eitthvað kunnugleg,“ sagði hann og greiddi brúnan lokk á bakvið eyrað. Hann brosti svo sást í tanngarðinn.

Lilja tók eftir því hvað hann var beinn og skjannahvítur. Strákurinn sótti sígarettu úr innri jakkavasanum og kveikti sér í. Reykurinn liðaðist út um nasirnar. „Í hvaða skóla varstu?“

„Ég er ekki í skóla.“

„En þú varst?“

„Já. Einu sinni,“ sagði hún. „En ég hætti.“

„Ég hætti líka,“ tilkynnti Kolla út í loftið og fékk sér sopa af bjórnum sínum. Það glampaði í augum stráksins. Lilja trúði ekki á neitt. Ekki á sálir né guð eða neitt. Og hún myndi aldrei viðurkenna þetta fyrir neinum, en hún fann að hann geislaði. Hann geislaði allur á hana.

Ókei,“ sagði strákurinn, yppti öxlum og fékk sér drjúgan sopa af bjórnum. Hann var á svipinn eins og þær hefðu komið honum skemmtilega á óvart.

„Þú ert dularfull,“ sagði hann.

„Ekki beint.“

„Ég heiti Óttar.“

„Lilja.“

Þetta var í fyrsta skiptið sem þau hittust. Þau sváfu saman í annað skiptið. Hún trúði honum ekki þegar hann sagði að hann hefði orðið skotinn í henni.

„Hann var svo fallegur,“ sagði hún síðar við vini sína, „og mér fannst ég bara vera einhver lítil stelpa.“


„Jón ætlaði að koma í mat í kvöld en ég sagði að það væri betra að hann kæmi seinna,“ sagði mamma hennar við Lilju.

Teið var farið að kólna í höndunum á henni. Hún var ekki búin að fá sér sopa. Vatnið í bollanum var slétt — orð mömmu hennar féllu á hana eins og regn.

„Ástin mín. Hvað viltu gera í kvöld? Viltu horfa á eitthvað?“

„Já kannski,“ sagði Lilja. Svo sagði hún. „Við vorum að hittast fyrir nokkrum árum.“ Mamman horfði á dóttur sína og beið eftir frekari útskýringu. En ekkert kom. Lilja tékkaði símann sinn og sá að hún var með fullt af skilaboðum. Hún setti á flugstillingu og setti símann á náttborðið.

„Ég ætla í sturtu og í náttföt.“

„Ókei, elskan mín,“ sagði mamma hennar og kreisti fram bros.


Allir í hringnum höfðu hátt um sig og gripu hver fram í fyrir öðrum. Hitalampi brann í loftinu fyrir ofan þau. Lilja fékk sér sopa af bjórnum og þegar hún setti hann aftur á borðið, fann hún að hávaðinn og skarkalinn á reykingasvæðinu fjaraði smátt og smátt út þar til herbergið varð fullkomlega hljóðlaust. Allt stöðvaðist. Fólk hætti að hreyfast; varð líkara útklipptum pappamyndum af sjálfu sér. Hún fann hitalampann brenna á hnakkanum og leit á strákinn sem sat við hliðina á henni og sá birtuna streyma á andlitið á honum. Haka hans lyftist upp í sömu andrá og hljóðið skall aftur á. Einhver kveikti sér í sígarettu. Kolla lyfti bjór að vörum sér og saup hratt og fast. Mannfólkið varð aftur raunverulegt.

„Ég ætla á klósstið,“ kallaði Kolla í eyrað á Lilju og stuggaði við henni. Rödd hennar skar rönd í hávaðann. Þær stóðu upp í sömu andrá og glas skall í gólfið og molnaði. Hlátrasköll brutust út á borðinu á móti þeim. Kolla ýtti við öxlinni á Lilju og þær stauluðust út um dyrnar á reykingasvæðinu og aftur inn á barinn.


Lilja læsti baðherbergisdyrunum og sótti handklæði úr hillunni fyrir ofan óhreina tauið. Hún skrúfaði frá sturtunni og leyfði klefanum að hitna á meðan hún klæddi sig úr. Klefinn var fljótur að fyllast af gufu og Lilja steig undir heitan strauminn.

Hún fann gusurnar dynja á sér. Dró blautt hárið frá andlitinu. Hún þvoði sér með sápu og hugsaði um fólkið sem hún þekkti. Andlit komu og fóru. Svipmyndir úr öðrum tíma. Hún hugsaði um Óttar, Kollu, fólkið sem hún hafði sært, fólkið sem hún hafði glatt. Hún einbeitti sér og hugsaði um ákveðna manneskju sem var ekki lengur partur af lífi hennar. Hún færði höndina neðar á líkamann og snerti sig, greip hinni hendinni utan um brjóstin. Nuddaði og kreisti þangað til hún fann spennuna nálgast. Hún jók hraðann. Snerti sig þangað til hún fann sig þenjast út — meira og meira. Litlar sprengingar komu fyrst. Svo stærri. Stórar.

Hún tók andköf.

Titringur bylgjaðist um líkamann.

Hún skrúfaði fyrir vatnið og stóð nakin í gufunni í stutta stund. Fann fyrir notalegum skjálfta.


Það var alltaf heitt heima hjá Óttari. Mamma hans vann á kvöldin og hann sagði Lilju að hún gæti komið hvenær sem hún vildi. Þau tóku eiturlyf, drukku bjór og sváfu saman. Henni fannst betra að vera hjá honum en hjá ömmu sinni og afa, og Óttar tók henni alltaf með glöðu geði. Ef hann var ekki heima var hann einhvers staðar úti, á Ingólfstorgi eða heima hjá öðrum stelpum.

Síðast þegar hún kom heim til hans tóku þau MDMA saman og Lilja fann sjáöldrin í sér stækka á meðan hún færði höndina á lærið á honum og þreifaði fram og aftur og fann spennuþræði myndast bakvið húðina.


Hún steig út úr sturtuklefanum, þurrkaði sér og klæddi sig í hreinar nærbuxur. Hún klæddi sig í uppáhaldsnáttbuxurnar sínar og hreinan bol. Hún vafði handklæði vandlega utan um höfuðið áður en hún gekk inn í herbergi og lagðist á rúmið. Húgó, kötturinn þeirra, skreið til hennar og Lilja klóraði honum á bakvið eyrun.

„Hvað segirðu elskan, hvað langar þig að borða?“ sagði mamma hennar.

„Veit það ekki,“ sagði Lilja. „Ég ætla að hringja í vinkonu mína.“ Mamma hennar kinkaði kolli og gekk fram í eldhús.

Lilja tók flugstillinguna af símanum og svaraði nokkrum skilaboðum. Hún stimplaði inn númerið hjá vinkonu sinni.

„Hæ.“

„Hæ,“ sagði Hildur, „hva segiru?“

„Verið betri.“

„Nú?“

„Varstu búin að heyra um Óttar?“

„Óttar … ?“

„Óttar Orra.“

„Nei? Hvað, hvað gerðist?“

Það varð þögn.

„Lilja?“

„Hann dó í gær.“

„Ha!? Hvað gerðist?“

„Hann lenti í slys-hi,“ sagði Lilja. „Á mótorhjólinu.“

„Elskan mín!“ sagði Hildur. „Er allt í lagi með þig? Hvað gerðist!?“

„Veit það ekki. Ég sá póst um það á Facebook. María póstaði mynd af honum … og einhverjum texta.“ Lilja hélt símanum þétt upp við eyrað. Beið eftir að vinkona hennar segði eitthvað.

„Gvuð,“ sagði Hildur. „Elskan mín. Ég trúi þessu varla. Voruði eitthvað búin að vera að tala saman?“

„Nei, ekkert nýlega. Þetta fokking mótorhjól,“ sagði hún. Tómleikatilfinning gerði vart við sig í brjóstinu.

„Já. Æhji. Ástin mín … “

„Getum við farið og barið það? Bara fokking lamið það í klessu?“

„Ég er til í þa!“ sagði Hildur. ,,Hvað sem þú vilt gera! Hvað ertu að gera núna?“

„Ég er heima. Mamma ætlar að elda eitthvað handa mér. Get ég heyrt í þér seinna í kvöld?“

„Ofkors,“ sagði Hildur. „Þú mátt alltaf heyra í mér. Ég samhryggist þér innilega. Þetta tekur sárt. Hann var yndislegur strákur. Láttu mig vita ef þig vantar eitthvað, ókei?“

„Já,“ sagði Lilja. „Takk.“

„Ég elska þig.“

„Ég elska þig líka.“

Hún lagði á og herbergið varð þögult. Fjarvera Óttars Orra í heiminum var áþreifanleg í fyrsta skipti. Meira að segja fólk sem var illa við hann fann fyrir því þegar hann var nálægt.

Lilju varð illt í hjartanu og hún vissi ekki hvað hún ætti af sér að gera. Hún fór að gráta og Húgó stakk höfðinu undir arminn á henni og hún strauk feld hans með máttlitlum fingrunum, lagði nefið upp við ennið á kettinum, þerraði tárin í mjúkum feldinum.

Hún lagði köttinn frá sér, klæddi sig úr náttbuxunum og í gallabuxur og gekk fram í eldhús.

„Hvað ertu að gera? Ertu að fara eitthvað?“ spurði mamma hennar.

„Já ég er bara aðeins að skreppa.“

„Maturinn er að verða til.“

Lilja lét eins og hún heyrði ekki í mömmu sinni og gekk fram í anddyri og klæddi sig í jakka og skó. Það var tekið að dimma. Rökkur lagðist hægt og bítandi yfir himininn.

„Ég kem eftir smá,“ kallaði hún og skellti dyrunum á eftir sér.


Hún settist upp í bílinn sinn og spennti á sig belti. Vinsælt lag dundi í útvarpinu. Hún hækkaði.

Asked me if I do this every day, I said often.

Tunglið var hátt á lofti þegar hún keyrði burt.

Mótorhjólið hafði lent á steypumóti á Suðurlandsbraut. Óttar lést við skellinn. Lést samstundis. Lilja ók niður Hringbrautina og niður í Skeifu án þess að hugsa sig tvisvar um. Hildur hringdi í hana en hún svaraði ekki símanum. Þegar hún var komin á bílastæðið fyrir framan Vínbúðina setti hún í hlutlausan og kippti upp handbremsunni. Hún lækkaði í útvarpinu og sat hreyfingarlaus og fylgdist með fólkinu ganga inn og út í hrönnum. Það gekk inn og kom út með bjórrútur undir arminum, vínflöskur, fulla poka í báðum höndum.


Hún sat stutta stund án þess að hreyfa sig. Kinnarnar voru heitar og grátbólgnar. Það væri auðvelt að fara inn. Kaupa kippu af bjór og Smirnoff. Hún vissi að hún gæti hringt í Hildi ef hana langaði til. Og hún vissi nákvæmlega hvað hún myndi segja.

Lilja yggldi brýnnar, lagði niður handbremsuna og keyrði burt, burt frá bílastæðinu, út úr Skeifunni. Hún fann símann í jakkavasanum, sendi Bjögga skilaboð.

Var hann heima?

Já.

Gat hún komið?

Já.

Hann sendi henni heimilisfangið og hún var ekki fyrr komin inn til hans en hún var byrjuð að klæða hann úr og kyssa hann á andlitið. Hann brást hissa við kossunum en tók fljótt undir þá, og reyndi að halda í við hana. Ljósin í íbúðinni voru slökkt en þau fálmuðu sig áfram í myrkrinu og færðu sig inn í svefnherbergi. Hann lagðist á rúmið og hún lagðist ofan á hann. Hún kyssti hann á hálsinn og klæddi hann úr skyrtunni, kyssti hann á bringuna, á magann, neðar á naflann, og hneppti svo frá buxunum. Hún tók hann upp í sig og tottaði hann þar til hann var orðinn harður. Hún mjakaði sér fram, fann hann og setti hann inn í sig. Hún dró djúpt andann, hreyfði sig hægt fram og aftur. Hún færði hendur hans á rasskinnarnar sínar. Hélt þeim þar. Hver einasta taug í líkamanum var spennt. Augnaráðið var á henni í myrkrinu og hún fann það skerast inn í sig. Hún beygði sig niður, studdi höndunum á axlirnar á honum og lokaði augunum.

Óttar Orri steig út úr hárri blokk og út í svalt næturloftið. Hann renndi upp rennilásnum á leðurjakkanum sem frændi hans hafði gefið honum áður en hann dó. Þetta voru þunnar lufsur, miklu frekar tískuvara en nokkurn tíma hlífðarfatnaður. Sæmi, frændi hans, var ekki týpan til að fyrirbyggja neitt. Óttar klæddi sig í hanskana og settist á racerinn — Triumph Daytona 955i, 2004 árgerð. Svart og gljáandi hjól. Sæmi sagði að hann hefði einu sinni farið upp í 230, en aldrei hraðar. Óttar setti í gang og það hvein í vélinni. Þetta fallega hljóð, hugsaði hann. Hann sveigði framhjá Glæsibæ og ók niður Suðurlandsbrautina. Hann var fljótur að komast upp í 100, 120. Lilja fór sér hraðar og hraðar. Hún hallaði sér fram og sá Óttari bregða fyrir á mótorhjólinu. Hann hallaði sér fram eins og hann gat. Hékk á gjöfinni. Lilja fór sér hraðar og hraðar. Hreyfði sig fram og aftur. Bjöggi stundi undir henni. 200, 205, 215. Hendurnar á Óttari urðu ískaldar undir þunnum hönskunum er hann brunaði áfram. Andlitið dofnaði. Og hann hætti að finna fyrir líkamanum. 220, 225, 230. Framljósin skáru rendur í nóttina. Brugðu henni upp. Hann fór hraðar og hraðar. Lilja stundi. Hún fór sér hraðar og hraðar og hraðar. Hann gaf í. 240, 250, 260.

Svo kom skellurinn. Blossar. Ljósbylgjur. Það varð allt hvítt.

Lilja gaf frá sér hljóð.


Sáluhjálp mín

Í þá daga gengu nunnur um ganga skólans og prestar réðu öllu milli himins og jarðar. Þannig hafði það verið í langan tíma, allt frá því að skólinn var stofnaður á þessari sömu lóð og löngu áður en ég

Tengingar

Fyrir nokkrum árum var ég sannfærður um að ég myndi deyja ungur. Að ég myndi deyja bráðum. Ætti í mesta lagi ár eftir eða svo...

Sara og Dagný og ég

Ég er stödd í strætó og stór og mikil svört kona horfir á mig eins og ég sé dóttir hennar. Hún er bæði áhyggjufull og vonsvikin á svipinn. Ljósin í strætónum flökta – perurnar eru að deyja. Ég reyni a

Commentaires


  • Instagram
  • Facebook
bottom of page