top of page

Pælingarbókmenntir

Hefurðu lesið svona bók þar sem aðalpersónan hugsar of mikið? Þar sem það er of mikið af heimspekipælingum og pælingum um lífið sem kemur í veg fyrir að sagan sé sögð?


Ég kalla þessa bókmenntategund pælingarbókmenntir. Þar sem pælingin kemur fyrst og sagan er í bakgrunninum eins og hún sé eitthvað aukaatriði.


Kannski er það eitt af einkennum samtímans að við erum alltaf að reyna að kryfja hann til mergjar. Löngun höfunda til að fanga tíðarandann og deila á samfélagið virðist sérstaklega sterk nú á dögum. Það eru allir að reyna að útskýra og kenna. En við hvern eru þeir að tala? Ég geri mér grein fyrir því að þetta er að einhverju leyti bara mitt persónulega mat. Það sem mér finnst til dæmis mest heillandi við bækurnar hans Dostojevskís er söguheimurinn og þessi mikla frásagnargleði, ástríðan og tilfinningahitinn sem einkennir sögupersónurnar. Þess vegna held ég mest upp á Fávitann en er minna hrifinn af Glæp og refsingu og Karamazov-bræðrunum. Dostojevskí viðurkenndi það sjálfur að hann væri enginn heimspekingur. Hann sérhæfði sig í sálarfræði og trúarkenningum og hann var afskaplega næmur á umhverfi sitt sem gerði honum kleift að skrifa þessi mögnuðu bókmenntaverk.


Heimspekibækur eftir Wittgenstein, Heidegger, Kant og Schopenhauer eru ekki flokkaðar með skáldsögum, enda eru þær ekki skáldsögur. Og sumir heimspekingar hafa beinlínis sett sig upp á móti skáldskap. Svo eru til bækur eins og Karamazov-bræðurnir, Dýrabær, The Crucible eftir Arthur Miller og fleiri sem talin eru með þeim allra bestu sem samið hefur. Í þeim er að finna krufningu á samtímanum, ádeilur og alls konar pælingar sem oft eru settar í forgrunn. Þess vegna segi ég að þetta sé að einhverju leyti bara mín skoðun. Sumir eru meira fyrir pælingarnar og aðrir eru meira fyrir sögurnar. Að sjálfsögðu er pláss fyrir heimspekileg verk í bókmenntaflórunni en mér þætti miður ef þau færu að telja hana alla. Eins og mér þætti miður ef það væri ekki til neitt lesefni annað en glæpasögur. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að rithöfundar segi söguna sem þeir vilja segja. Þeir þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur af því að ná ekki að koma pælingum sínum á framfæri því að hvaða hugmyndir sem þeir eru með í kollinum munu skína í gegnum prósann hvort eð er.


Flannery O'Connor er einn af mínum uppáhaldshöfundum og hún var ein af þessum bókmenntaséníum eins og James Joyce og Oscar Wilde. En sögurnar hennar, sem oft voru innblásnar af dæmisögum úr Biblíunni, voru aldrei einungis tjáning á heimspekilegum eða trúarlegum hugmyndum og pælingarnar voru aldrei settar í fyrsta sæti. Hún leit á söguskrif sem eins konar uppgötvun og planaði aldrei fram í tímann hvað ætti að gerast í sögunum, heldur leyfði sér að komast að því meðan hún skrifaði. Cormac McCarthy var eins hvað þetta varðar og Raymond Carver líka. Það er örugglega ómögulegt að plana hverja einustu sögufléttu fram í tímann af því að það breytist alltaf eitthvað á leiðinni. Í því felst galdurinn. Meira að segja í glæpasögum þar sem það þarf að kortleggja söguna nokkuð vel í upphafi og passa upp á að skilja ekki eftir neina lausa enda.


Ég væri til í að lesa fleiri ritgerðarsöfn. Og mér finnst stundum eins og sumar skáldsögur í dag fengju að njóta sín betur sem ritgerðarsöfn. Vegna þess að pælingar eiga allt eins heima í ritgerðum og heimspekiritum og þurfa ekki á skáldskapnum að halda. Rithöfundar verða að geta sagt grípandi, innihaldsríkar og áhugaverðar sögur sem hreyfa við fólki og jú, helst segja eitthvað um lífið og tilveruna. En mér finnast lesendur illa sviknir þegar skáldskapurinn er einungis nýttur undir pælingar, krufningar, vísindi og stúdíur. List er svo miklu meira en það.

Comments


  • Instagram
  • Facebook
bottom of page